Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að gera fyrir þig?

Eftir að hafa fengið miklar ákúrur varðandi það að segja einungis frá því hvaða gloríur stjórnarflokkarnir eru að gera en ekki hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera fyrir heimilin í landinu hef ég ákveðið að setjast niður og skrifa niður stuttan texta fyrir ykkur um hvað flokkurinn hefur í hyggju að gera komist hann í ríkisstjórn.

 20.000 ný störf

 Sjálfstæðisflokkurinn hefur í hyggju að skapa umhverfi í efnahagslífinu á Íslandi svo möguleiki gefist til þess að skapa 20.000 ný störf á kjörtímabilinu. Takist það mun það afla ríkissjóði aukinna skatttekna svo nýir skattar svo sem hátekjuskattur og eignaskattur verði óþarfir. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig nýta auðlindir okkar Íslendinga til gjaldeyrisöflunar. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að ráðast þessar aðgerðir? Í fyrsta lagi þarf að ljúka uppbyggingu bankakerfisins svo hægt sé að stuðla að eðlilegu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna svo þau geti vaxið og ráðið fleira fólk til vinnu. Greiða fyrir fjölbreyttum orkufrekum iðnaði svo sem gagnaverum, álþynnuverksmiðju, kísilflöguverksmiðju sem og álframleiðslu. Virkja skattkerfið svo það hafi hvetjandi áhrif á fjárfesta með skattaafsláttum. Einnig vill flokkurinn veita skattaafslátt til þeirra fyrirtækja sem ráðast í nýsköpunar- og þróunarverkefni.

 Staða heimilanna

Staða heimilanna í landinu er nú því miður orðin mjög slæm og hefur Sjálfstæðisflokkurinn sett saman áætlun til þess ætlaða að létta undir með heimilunum í landinu. Hann vill minnka greiðslubyrði lána um 50% í þrjú ár gegn því að lengja lánið í hinn endann og ef það virkar ekki huga að höfuðstólsleiðréttingu lánsins.Fjármálafyrirtækjum verði gefin sá kostur að færa húsnæðislán bankanna til Íbúðarlánasjóðs. Afnema stimpilgjöld svo auðveldara verði að endurfjármagna íbúðarlán sem og að liðka fyrir viðskiptum á íbúðamarkaði. En forsenda fyrir þessum aðgerðum er lækkun vaxta sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst beita sér fyrir. Hvers vegna þarf að ráðast í þessar aðgerðir? Ástæðan fyrir því er einföld, ef að heimilunum er hjálpað hefur það jákvæð áhrif út í atvinnu lífið með auknum ráðstöfunartekjum geta fjölskyldurnar nýtt sér meiri þjónustu sem skilar sér í aukinni atvinnu í þjónustugeiranum.

Fyrirtækin

Að meðaltali síðustu 70-80 daganna hafa 10 fyrirtæki á dag farið á hausinn, stór og smá. Sjálfstæðisflokkurinn vill vinna með fyrirtækjunum að endurmati fjárhagsáætlana og skuldaþoli. Gera eigendum og starfsfólki kleift að eignast hlut í fyrirtækjunum og laða að þeim fjárfesta eins og íslenska lífeyrissjóði og erlenda fagfjárfesta. Tryggja þarf fulla atvinnu svo hægt verði að bjarga heimilunum. Eins og eitthver orðaði það, Þú bjargar ekki heimilunum án þess að bjarga fyrirtækjunum. Þessir tveir hlutir eru nátengdir.

Gjaldeyrismál

Gjaldeyrismál í dag eru í miklum ólestri og er vitað mál að til lengri tíma litið þarf eflaust nýjan gjaldmiðil. En eins og staðan er í dag þurfum við að halda krónunni næstu árin og því þarf að koma stöðugleika á í kring um hana. Til að byrja með þarf að afnema gjaldeyrishöftunum (sem höfundi þykir vera í bága við EES-samningin hvað varðar frjálst flæði fjármagns án þess þó að vera með það á hreinu). Krónan gefur okkur þann sveigjanleika til þess að getað unnið okkur út úr vandanum samanber það sem Asíulöndin gerðu á sínum tíma, öll héldu þau í gjaldmiðla sína. Eins og þetta var orðað á blaðsíðu 56 í skýrslu sem hét Krónan og atvinna sem Viðskiptaráð gaf út árið 2006 um möguleika Íslands hvað varðar upptöku á öðrum gjaldmiðli, ,,Til þess að Íslendingar geti í framtíðinni átt raunhæft val á milli evru og íslensku krónunnar, á grundvelli efnahagslegrar og stjórnmálalegrar forsendna, þarf að beita samræmdum aðgerðum á sviði hagstjórnar til þess að mynda jafnvægi í þjóðarbúskapnum". Það þarf enginn að segja mér það að jafnvægið sé meira nú heldur en það var árið 2006.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband