Ekki sleppa bensíngjöfinni í miðju flugtaki

Ríkisstjórnin hefur setið að völdum í átta mánuði í núverandi mynd.  Það er ekki hægt að halda því fram að hún hafi verið verkfús þessa átta mánuði. Það er enn verið að vasast í sömu málum og fyrir átta mánuðum.  Ríkisstjórnin hefur verið gjörn á að skella skuldinni á síðustu ríkisstjórn, ríkisstjórn þar sem meira en helmingur núverandi ráðherra Samfylkingarinnar áttu sæti, staðreynd sem Samfylkingarfólk virðast hafa gleymt.

Nú stendur til að rústa staðgreiðslukerfi skatta og taka upp kerfi með þremur þrepum sem verða frá 36,1% og upp í 47,1%. Umræðan þessar fyrirhuguðu skattahækkanir er því miður ekki alltaf skynsamleg og ekki auðvelt að átta sig á hvernig þær muni vera í endanlegri útfærslu.

Tökum dæmi af einstaklingi sem er nýútskrifaður úr háskóla og er kominn með vinnu þar sem að hann fær 600.000 kr á mánuði. Þessi einstaklingur mun þurfa að borga 17.000 kr. aukalega á mánuði miðað við núverandi kerfi, sem gerir 204.000 kr. á ári. Ímyndum okkur í kjölfarið að hann sé að borga af bíl, íbúð og námslánum.  Þetta er ástand sem ungt vel menntað fólk mun flýja, því miður.

Fyrirhugaðar breytingar munu draga úr neyslu og þar með mun atvinnuleysi aukast þar sem fyrirtæki koma til með að draga saman seglinn. Ríkisstjórninni sem tók við völdum fyrir átta mánuðum síðan virðist ekki hafa aðrar hugmyndir en að auka skattheimtu enn frekar, að sækja í  þegar grunna vasa skattborgara þessa lands.

Samkvæmt Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010, sem liggur fyrir, eiga tekju- og fjármagnstekjuskattar á einstaklinga að hækka um 38,9%. Þá á eftir að taka tillit til allra óbeinu skattanna sem hækka, svo sem virðisauki, skattur á rafmagn,heitt vatn og eldsneyti svo eitthvað sé nefnt.  Þessir óbeinu skattar hækka verðlag sem skilar sér beint í hækkun á vísitölu neysluverðs og þar með fer verðbólgan af stað og verðtryggðu lánin með. 

Því er haldið fram að með þessum skattahækkunum séum við Íslendingar rétta að komast á par við norðurlandaþjóðirnar í skattheimtu.  Það veit það hver maður að bæði skattkerfi og hin félagslegu kerfi eru byggð upp með öðrum hætti á norðurlöndunum en hér á landi.  Það er galið að ætla að fara upp að hlið norðurlandanna í skatthlutfalli en draga á sama tíma úr félagslega hlutanum.  Þetta telur forysta ríkisstjórnarinnar vera hina bestu hugmynd og telja að allir verði bara nokkuð sáttir á eftir.  Fólksflótti mun ekki eiga sér stað vegna þess að skattprósentan er á svipuðu róli hér á landi og á hinum norðurlöndunum, hann mun eiga sér stað af því að þar hafa menn meiri ráðstöfunartekjur og fá meira frá hinu opinbera fyrir þessa sömu skattprósentu.  Ríkisgreiddar tannlækninigar fyrir 18 ára og yngri og beinn námsstyrkur til handa nemendum úr ríkissjóði eru t.d. mál sem hinar norðurlandaþjóðirnar verja skattpeningum til og réttlæta þar með hina háu skattheimtu.  Þetta á ekki við á Íslandi eins og hver maður veit.

Í lokin vil ég biðla til ríkisstjórnar að sleppa ekki bensíngjöfinni í miðju ,,flugtaki“. Nú þurfum við á öllum skattstofnun að halda og besta leiðin til að þeir skili sínu er að breikka þá og efla með því að styðja atvinnulífið af stað.  Síðast þegar stjórnmálamenn ætluðu að skattleggja sig út úr kreppu, endaði það í Kreppunni miklu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband